Valmynd

  • Stjórn, nefndir og ráð
  • |
  • Aðildarfélög
  • |
  • Lög og reglugerðir
  • |
  • Fundargerðir
  • |
  • Verkefnasjóður
  • |
  • Um HSK
Héraðssambandið Skarphéðinn

 

12. apríl 2012

Stærsta íþróttamót ársins á Selfossi

Um næstu verslunarmannahelgi verður stærsta íþróttamót ársins haldið á Selfossi.  Það er að sjálfsögðu Unglingalandsmót UMFí þar sem búist er við allt að 2.500 keppendum á aldrinum 11 ? 18 ára. 
Framkvæmd Unglingalandsmótsins er risavaxið verkefni sem kallar á samstöðu og samvinnu Selfyssinga og sunnlendinga allra.  Þetta er sameiginlegt stórverkefni sem við eigum að leysa með glæsibrag og sýna að við getum auðveldlega tekið á móti 15 ? 20 þúsund gestum með bros á vör.
Héraðssambandið Skarphéðinn sem heldur mótið og við sem störfum í framkvæmdanefndinni höfum unnið að undirbúningi þess í um 2 ár og nú er lokaspretturinn framundan því mikið skipulag, marga sjálfboðaliða og mikla vinnu þarf til að halda vímulausa fjölskylduhátíð þar sem á einni helgi fer fram veglegt íþróttamót í 14 keppnisgreinum með 2.500 keppendum ásamt afþreyingu, skemmtunum og þjónustu fyrir keppendur og fjölskyldur þeirra.
Á Selfossi eru mjög glæsileg íþróttamannvirki og á sveitarfélagið og forystumenn þess heiður skilinn fyrir glæsilega uppbyggingu.   Á undanförnum áratugum hafa ýmsir aðilar rennt hýru auga til íþróttavallarsvæðisins í hjarta bæjarins.  Einörð barátta fyrir tilvist þess og uppbyggingu hefur gert mögulegt að byggja þar á rúmum áratug upp eitt besta íþróttavallarsvæði landsins með fjölbreyttum möguleikum.  Nýir keppnisvellir og áhorfendaaðstaða til viðbótar við góðan gervigrasvöll og æfingasvæði og nálægðin við íþróttahúsin Iðu og Vallaskóla, með sundlaugina og skólamannvirkin í seilingarfjarlægð, skapar einstaka möguleika til að halda heildstætt mót bæði innan húss og utan.  Keppnisvöllur í hestaíþróttum og reiðhöll eru í göngufjarlægð og síðan verður golfkeppni og mótorkross á sínum stað.  Þessi aðstaða sem búin er mótshaldinu, jákvætt viðhorf og áhugi bæjarstjórnar og starfsfólks sveitarfélagsins skapar einstæða möguleika á að mótið takist vel.
En mót þarf meira en aðstöðu þó hún sé nauðsynleg.  Til þess að það heppnist vel verða allir að leggja sín lóð á vogarskálar.  Við í framkvæmdanefnd mótsins vinnum að skipulagi og framkvæmd mótsins, höfum sterkan stuðning UMFÍ sem leggur til framkvæmdastjóra, starfsfólk, reynslu og þekkingu.  Okkur hefur orðið vel ágengt við öflun styrktaraðila því orðspor mótanna er svo gott að víðast komum við að opnum dyrum.  Við höfum fengið til starfa 14 sérgreinastjóra sem skipuleggja keppni í einstökum greinum og sjá um að fá starfsfólk og dómara og munu hafa umsjón með framkvæmd íþróttakeppninnar með aðstoð framkvæmdanefndarinnar.  En meira þarf ef duga skal.  Við þurfum fjölda sjálfboðaliða til að undirbúna og framkvæma mótið, bæði innan og utan íþróttahreyfingarinnar.  Þar er um að ræða ýmis störf, allt frá aðstoð við íþróttakeppni, þjónustu, gæslu, sölu, frágang og þrif, svo eitthvað sé nefnt.  Allir þessir þættir skýrast þegar nær líður móti, en endilega, takið Verslunarmannahelgina frá, við þurfum á öllum vinnufúsum höndum að halda.
Þessu til viðbótar verðum við Selfyssingar og Sunnlendingar allir að sameinast um að taka vel á móti gestum okkar.  Það nær auðvitað til allra þátta mótshaldsins og framkvæmdar þess en einnig til allra verslana, ferðaþjónustu og þjónustuaðila í héraði, því ekki viljum við eingöngu framkvæma íþróttakeppnina með sóma, sjá um að tjaldsvæði, kvöldvökur og skemmtanir verði til fyrirmyndar, við viljum bjóða gesti okkar velkomna með bros á vör, hvar sem þeir koma í héraði, og hvað sem þá vanhagar um. 
Við í framkvæmdanefndinni og íþróttahreyfingin öll sem framkvæmir mótið í sjálfboðavinnu treystum á stuðning og samvinnu við alla Sunnlendinga til þess að mótið geti orðið okkur öllum til sóma. Þar verðum við Sunnlendingar allir að sýna samstöðu.

Viðburðir

  • 15.07.2025 Héraðsmót fatlaðra í frjálsum íþróttum
  • 15.07.2025 Héraðsmót HSK í frjálsum íþróttum
  • 27.07.2025 Landsmót UMFÍ 50+
  • 31.07.2025 Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum
  • Fleiri viðburðir
  • HSK met
  • Sögulegur fróðleikur
  • Ársskýrsla HSK


Úrslit héraðsmóta

15.05

Sund, héraðsmót 2025

29.04

Sund, aldursflokkamót 2025

11.04

Blak, héraðsmót stúlkna 2025

11.04

Blak, héraðsmót drengja 2025

13.01

Skák, sveitakeppni HSK

Fleiri úrslit

Nýjar myndir

Formannafundur HSK 2025

Héraðsmótið í sundi 2023

Unglingamót HSK í frjálsum inn..

Aldursflokkamót í frjálsum inn..

Fleiri myndir

Mótaskrá HSK

15.07

Frjálsar, héraðsmót fatlaðra

15.07

Frjálsar, héraðsmót

logo

Héraðssambandið Skarphéðinn

Selinu

Engjavegi 48

800 Selfossi

Sími 482 1189

hsk@hsk.is