Valmynd

  • Stjórn, nefndir og ráð
  • |
  • Aðildarfélög
  • |
  • Lög og reglugerðir
  • |
  • Fundargerðir
  • |
  • Verkefnasjóður
  • |
  • Um HSK
Héraðssambandið Skarphéðinn

 

15. ágúst 2012

Líf og fjör á Unglingalandsmóti UMFÍ

Að baki er velheppnuð og viðburðarrík verslunarmannahelgi á Selfossi. Við sem sátum í framkvæmdanefnd  Unglingalandmóts UMFÍ 2012 settum okkur   það markmið að gera mótið sem glæsilegast og að mínu mati tókst það. Í öllum undirbúningi einsettum við okkur að taka á móti gestum okkar með bros á vör og veðurguðirnir lögðu sitt af mörkum hvað þann þátt varðaði.  Hér brosti sólin sem og aðrir alla helgina. Sveitarfélagið bauð upp á frábæra aðstöðu, jafnt á keppnissvæðum sem á tjaldsvæði og var mikil ánægja meðal gesta með þá aðstöðu og þjónustu sem í boði var.

Á Unglingalandsmótum UMFÍ  hittast keppendur af öllu landinu, í ár var nýtt met  slegið í keppendafjölda. Auk íþróttakeppni var boðið upp á vandaða og fjölbreytta dagskrá alla landsmótsdagana. Hér var iðandi mannlíf og bærinn fullur af lífi, kæti og gleði. Þegar ég fór um Selfoss mótsdagana var  ekki hægt að merkja að hér væru þúsundir á ferð og flugi, umgengnin var frábær og eiga þeir sem sáu til þess að hér sást ekkert rusl á götum eða öðrum svæðum, þakkir skildar. Ég held þó að fleiri en þeir sem skráðir voru sem sjálfboðaliðar við hreinsun hafi lagt þar hönd á plóg. Einn morguninn þegar ég var að aka inn í bæinn, enginn sjáanlegur á ferli, tek ég eftir rusli á Austurvegi en kem þá jafnframt auga á  eldri manni sem var að hreinsa upp það sem á vegi hans varð. Ég er ekki í vafa um að þessa góðu vinnu ástunduðu fleiri og sáu þannig til þess að bærinn skartaði sínu  fegursta.

Í spjalli mínu við börn og ungmenni mótsdagana kom fram í máli þeirra að á Unglingalandsmótum væri mikil stemning og stuð.  Á mótunum skapist mikil vinátta og margir nýir vinir og félagar bætast í vinahópinn.  Ég heyrði að nú þegar væru margir farnir að leiða hugann að því  að skipuleggja för á næsta mót sem haldið verður á Höfn í Hornarfirði að ári.

Unglingalandsmót UMFÍ er í mínum huga einhver mesta upplifun sem ungmenni landsins  eiga kost á að taka þátt í um verslunarmannahelgi. Mótin efla íþróttastarfið, vináttu og samkennd og þátttakendur mæta fullir af orku til leiks í íþróttafélögum sínum að hausti með skemmtilegar minningar af mótunum.

Ég er þess fullviss að Unglingalandsmótið er enn ein rósin í hnappagat Héraðssambandsins Skarphéðins og vil hér með nota tækifærið til þess að þakka Sveitarfélaginu Árborg fyrir þeirra stóra þátt í að gera mótið jafn glæsilegt og raun bar vitni sem og fyrir frábæra samvinnu við allan undirbúning. Formanni og framkvæmdastjóra  UMFÍ, framkvæmdastjóra og verkefnastjóra mótsins sem og meðnefndarfólki mínu í framkvæmdanefnd mótsins. Björgunarsveit og lögreglu  þakka ég fyrir þeirra framlag.

Innan Héraðssambandsins Skarphéðins er stór og föngulegur hópur af frábæru fólki sem kann vel til verka þegar kemur að stórmótum, þar fara fremstir í flokki sérgreinastjórar mótsins sem lögðu grunninn, með sínu aðstoðarfólki, að vel skipulagðri og skemmtilegri íþróttakeppni. 

HSK átti glæsilegan hóp keppenda sem fengu treyju merkta sambandinu og Arionbanka. Unglingalandsmótsnefnd HSK hafði veg og vanda af undirbúningi og skipulagningu þátttöku HSK og færi ég þeim bestu þakkir fyrir vel unnin störf.

Félagar  okkar í HSK voru hvattir til þess að koma til starfa með framkvæmdanefndinni og leggja sitt af mörkum svo mótið yrði sem glæsilegast og helgin ógleymanleg gestum okkar, það má með sanni segja að því kalli hafi verið svarað kröftuglega. Hundruðir sjálfboðaliða lögðu okkur lið og unnu hér daga og nætur með bros á vör. Þeirra framlag fáum við seint fullþakkað, án þeirra starfa hefði mótið ekki verið haldið.

Það var okkur í stjórn HSK afar mikilvægt að vel tækist til með Unglingalandsmót UMFÍ þar sem við  höldum annað stórmót að ári, það er Landsmót UMFÍ 2013, í samvinnu við Sveitarfélagið Árborg. Nú er hálfleikur og ég er þess fullviss að seinni hálfleikur verður ekki síður vel spilaður af okkar hálfu. Í leikhléinu þurfum við að lagfæra þá hnökra sem upp komu. Ég er þess fullviss að við mætum tvíefld til leiks í seinnihlutann og getum borið höfuðið hátt með bros á vör í leikslok.

Keppendum þakka ég drengilega keppni, forráðamönnum og öðrum gestum þakka ég fyrir komuna og skemmtilega daga og býð ykkur velkomin á Landsmót UMFÍ 4. – 7. júli 2013 á Selfossi.

Viðburðir

  • 15.07.2025 Héraðsmót fatlaðra í frjálsum íþróttum
  • 15.07.2025 Héraðsmót HSK í frjálsum íþróttum
  • 27.07.2025 Landsmót UMFÍ 50+
  • 31.07.2025 Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum
  • Fleiri viðburðir
  • HSK met
  • Sögulegur fróðleikur
  • Ársskýrsla HSK


Úrslit héraðsmóta

15.05

Sund, héraðsmót 2025

29.04

Sund, aldursflokkamót 2025

11.04

Blak, héraðsmót stúlkna 2025

11.04

Blak, héraðsmót drengja 2025

13.01

Skák, sveitakeppni HSK

Fleiri úrslit

Nýjar myndir

Formannafundur HSK 2025

Héraðsmótið í sundi 2023

Unglingamót HSK í frjálsum inn..

Aldursflokkamót í frjálsum inn..

Fleiri myndir

Mótaskrá HSK

15.07

Frjálsar, héraðsmót fatlaðra

15.07

Frjálsar, héraðsmót

logo

Héraðssambandið Skarphéðinn

Selinu

Engjavegi 48

800 Selfossi

Sími 482 1189

hsk@hsk.is