Valmynd

  • Stjórn, nefndir og ráð
  • |
  • Aðildarfélög
  • |
  • Lög og reglugerðir
  • |
  • Fundargerðir
  • |
  • Verkefnasjóður
  • |
  • Um HSK
Héraðssambandið Skarphéðinn

 

27. mars 2025

Ávarp formanns HSK á héraðsþingi 2025

Héraðsþing eru sannarlega áfangi þar sem rík hefð er fyrir að líta um öxl og um leið horfa aðeins fram á veginn. Það er einmitt það sem við gerum hér í dag á 103. Héraðsþingi HSK.  

Hvert ár er fullt af viðfangsefnum sem verða hluti af stærri sögu. Eins og öll önnur starfsár HSK hefur verið mikið að gera og okkar íþróttafólk farið um víðan völl og unnið stóra sigra og smáa. Íþróttafólkið, þjálfarar og aðrir sem starfa í íþróttafélögunum okkar býr yfir dugnaði, metnaði og vinnusemi. Hafa sett sér skýr markmið, keppt að þeim öllum stundum og haldið í gleðina fyrir öllum sigrum, stórum sem smáum.

Við búum svo vel HSK félagar að sveitarfélögin á svæðinu og fjölmargir styrktaraðilar á Suðurlandi hafa reynst okkur vel í gegnum tíðina, verið okkar stoð og stytta. Án þeirra gætum við ekki haldið áfram okkar góða íþróttastarfi og unnið áfram að framþróun fyrir samfélagið. 

   

Tökum höndum saman gegn ofbeldi

Í fyrra vísaði samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs níu málum sem hann fékk í hendurnar til lögreglu. Einnig var málum 27 barna, í fimmtán málum, vísað til barnaverndar og getum við öll verið sammála um að það er óásættanlegt. Tilkynnt var um hundrað mál sem segir okkur að það geri tvö mál á viku og eru þau ekki bundin við ákveðnar íþróttir.

Kristín Skjaldardóttir, samskiptaráðgjafi, hélt erindi á morgunverðarfundi, Náum áttum, 19. febrúar 2025 þar sem fjallað var um kynferðisbrot og ungmenni. Þar sagði hún þessi mál geta varðað þjálfara, starfsmenn eða iðkendur á ólíkum aldri og er allt frá óviðeigandi snertingu til nauðgunar. Einnig berast mál er varða andlegt ofbeldi, ljóta orðræðu, hunsun og líkamlegar refsingar.

Fram kom í erindi Kristínar að mikilvægt væri að hvert félag búi yfir viðbragðsáætlun og taldi hún óæskilegt að félögin taki sjálf á þeim málum sem upp kunna að koma og sagði áætlunina mikið framfaraskref. Þar sem íþróttastarf hafi forvarnargildi sé brýnt, ef einstaklingur sé til rannsóknar hjá lögreglu eða mál hjá barnavernd, að víkja viðkomand til hliðar á meðan. Ef meintir gerendur eru eldri en 18 ára megi vísa þeim frá starfi. Stundum hafi reynt á þetta en ávallt eigi að gæta þess að haga málum á þann veg að bæði þolandi og gerandi geti iðkað sína íþrótt. 

Kristín sagði að oft sé auðveldara að vinna að málum barna sé þeim vísað til barnaverndar. Hvað varðar eldri gerendur og þolendur er oft erfitt að finna út hvert leita eigi. Flest mál sem berast til samskiptaráðgjafa varða einstaklinga sem eru báðir í íþróttahreyfingunni. Málum sem ekki eiga heima þar er vísað áfram og komið í rétt ferli.

Við þurfum að vanda orðræðu okkar í samskiptum við börn, forðast hunsun, niðurlægingu og líkamlegar refsingar. Munum að andlegt ofbeldi getur komið fram í ummælum um holdafar og litaraft. Það skiptir öllu máli hvernig við orðum hlutina, forðumst að tjá okkur á niðurlægjandi hátt, bjóðum frekar fram aðstoð á hlýlegan máta.

Fram kom í erindi Kristínar að hægt er að fá fræðslu fyrir iðkendur, foreldra, þjálfara og aðra sem koma að íþrótta- og æskulýðsstarfi. 

Þjálfarar geta fengið kennslu í að setja mörk. Þeir eiga ekki að þurfa að svara endalausu áreiti frá foreldrum. Þeir fá þjálfun í að vernda sig og vera ekki í samskiptum á samfélagsmiðlum þar sem mál geta blásið út og orðið nær óyfirstíganleg. Heldur nota það app sem íþróttafélagið er með virkt og heimild er fyrir. Hvetjum fólkið okkar til þess að sækja í fræðslu og nýta hana. Með því aukast líkur á að ofbeldismálum fækki. En íþróttahreyfingin þarf líka að standa sig vel með fræðslu fyrir starfsmenn íþróttafélaganna. Allir þurfa að vera meðvitaðir um viðbragðsáætlun félagsins. Kristín nefndi að án forvarna og fræðslu er erfitt að fækka málum. Fræðslan á að hafa það að markmiði að koma í veg fyrir stærri mál sem vinna þarf úr. 

Oft er talað um að það sé erfitt að fá fólk til sjálfboðaliðastarfa út af kröfum sem til þeirra eru gerðar en þá má spyrja á móti hvers vegna ætti að gefa afslátt í vinnu með börnum. Ég held að við séum sammála um að það eigi ekki að gera. Þau sem ekki þiggja fræðslu ættu að velta fyrir sér hvort þau séu á réttri hillu.

 

Göngum í lið með „Riddurum kærleikans”

Undanfarið hefur því miður borið á auknu ofbeldi í samfélaginu og er erfitt fyrir marga að skilja það. Við finnum öll til þegar fregnir berast af ofbeldisverkum. Við viljum öll búa í samfélagi þar sem við erum óhult og okkur líður vel og finnum fyrir öryggi. Við finnum fyrir vanmætti yfir stöðu þessara mála í dag.
                Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, efndi til umræðufundar af þessu tilefni með fjölmörgum aðilum sem bera hag ungs fólks fyrir brjósti. Á fundinum var rætt um andlega líðan ungmenna í samfélagi nútímans og leitað leiða til að komast að rót vandans. Þar kom fram tillaga um að hvetja almenning til þess að gerast „riddarar kærleikans”, með því að gera kærleikann að eina vopninu í íslensku samfélagi.
                Eins og fyrr reynir á okkur í íþróttahreyfingunni að mæta þörfum ungs fólks þar sem undanfarin ár höfum við sífellt séð fleiri merki þess að börnum og ungmennum okkar líði ekki nógu vel og eigi æ erfiðara með að horfa með bjartsýni, trú og von til framtíðar. Sumir tala um tengslarof og við getum ekki horft framhjá áhrifum snjalltækja og samfélagsmiðla. Þessari þróun hefur fylgt vanlíðan, depurð, kvíði og ofbeldi.
                Við getum velt fyrir okkur hversu vel fullorðna fólkið hefur brugðist við þessum breytta heimi sem við lifum í. Íþróttahreyfingin verður að láta þessi mál til sín taka og hefja sókn til mótunar nýrra viðmiða og leikreglna.
                Á fundi forsetans kallaði Halla eftir því að íslenska þjóðin sameinaðist í átaki um að ráðast að rót vandans og sagði að hver og einn hefði þar ákveðið hlutverk. Ég hvet okkur í íþróttahreyfingunni að verða við þessu kalli, tökum höndum saman og verum Riddarar kærleikans.
                Við í íþróttahreyfingunni þurfum að ræða saman, leita leiða til að hrinda af stað samfélagsbreytingum til að stoppa þróun ofbeldismála. Við höfum val um hver við viljum vera og einmitt það segir forsetinn að sé lykillinn að lausninni. Við sem þjóð þurfum að velja hvernig brugðist er við gegn ofbeldi. Það mun skipta öllu máli um hvernig samfélag við búum börnum okkar inn í framtíðina.
                Við höfum reynslu af því hvernig samtakamáttur getur breytt samfélagi til hins betra og öllu máli skiptir að bæta tengsl við okkur sjálf og hvert annað. Sýnum hvert öðru virðingu, hlýju og vinsemd og gerum kærleikann að vopni okkar gegn ofbeldi.
                Ráðumst að rót vandans á jákvæðan hátt. Að velja í hvernig samfélagi við viljum búa er ærið verkefni en eins og við þekkjum í íþróttahreyfingunni - með samstilltu átaki eru okkur allir vegir færir.

 

Skattmann

Á liðnu starfsári er eitt mál sem hefur komið miklu umróti á íþróttahreyfinguna og hefur verið fundað um og leitað lausna. Málið tengist Skattinum og snýr að rekstri félaganna sem eiga lið í efstu og næstefstu deildum kvenna og karla í handbolta, körfubolta og fótbolta. Gangi málið eftir án þess að til komi stuðningur ríkis og sveitarfélaga verður erfiðara fyrir hreyfinguna að halda úti sínu kröftuga starfi.

Nú nýverið sendi Skatturinn bréf á íþróttafélögin þar sem fram kom að á dagskrá væri að taka til skoðunar hvernig skattaskilum hreyfingarinnar sé háttað og að fyrirhugað er að skoða skattaskil félaganna með reglubundnum hætti í framtíðinni. Í bréfinu er þess einnig getið að íþróttafélög og starfsemi þeirra verði skoðuð sérstaklega enda séu vísbendingar um að eitthvað skorti á skil þeirra á staðgreiðslu launa og fleira. Hvatt er til þess að félögin skrái flesta starfsmenn sína, leikmenn og þjálfara, sem launþega í stað verktaka. 

Enn fremur er þess getið í bréfinu að aðilar sem veljast til stjórnarsetu í aðalstjórnum félaganna skuli bera fulla ábyrgð á skattskilum allra verktaka og starfsmanna og benda í því sambandi á refsiábyrgð. Varðandi þennan lið er vert að benda á að stjórnarfólk í félögum sitja þar sem sjálfboðaliðar með það að markmiði að sinna mikilvægu samfélagslegu starfi félaganna.

Allir sjá í hendi sér hvaða áhrif þetta hefur á starfsemina þar sem flest félög eru í sífelldri baráttu um að halda starfseminni gangandi með sem minnstum tilkostnaði. Gangi þetta erindi Skattsins eftir blasir sú staðreynd við að það mun gera starf félaganna erfiðara og eykur kostnað sem mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir allt starf íþróttafélaganna. Málið snýst einfaldlega um að ekki er hægt að leggja meira á sjálfboðaliðana varðandi fjáröflun, nóg er það sem flest félög hafa þurft að leggja á sitt fólk í þeim efnum og ekki á bætandi. 

Eins og við mátti búast brá mörgum sem bréfið fengu. Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, bendir á að Skatturinn sé með þessu að vinna þá vinnu sem þeim ber, hins vegar þurfi að kanna hvort hægt sé að styðja við félögin með sérstökum ívilnunum eins og gert er í nágrannalöndum okkar. Til greina gæti komið að skoða að ríkið endurgreiði staðgreiðslu skatta og tryggingargjalda til íþróttafélaganna. Við vitum öll að sífellt eru gerðar meiri kröfur um fagmennsku í þjálfun og allri umgjörð tengdri íþróttastarfsemi frá opinberum aðilum og má þar nefna ýmiss verkefni frá sveitarfélögunum. Þetta hefur aukið kostnað hreyfingarinnar verulega og því verður að mæta með einhverjum sanngjörnum hætti.

Talsmenn íþróttahreyfingarinnar hafa fundað með ráðherrum ríkisstjórnarinnar til þess að finna sanngjarnan flöt á þessu máli og vona ég að útkoman verði ásættanlegt fyrir íþróttastarfsemi í landinu.

Góða grein, Íþróttir fyrir alla, eftir formenn ÍBR, UMSK og ÍBH má finna inni á Vísi 22. febrúar 2025 (Skoðun) þar sem þeir óska eftir að stjórnvöld efni til samtals við íþróttafélögin i landinu og að tryggt verði áfram öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf fyrir öll börn og ungmenni landsins. Óskað er eftir að gerðar verði lagfæringar á reglum skattsins þannig að þær endurspegli eðli starfseminnar og mikilvægi og undir þá ósk tökum við HSK félagar heilshugar.

 

Svæðisskrifstofur

Nú hafa verið settar á laggirnar átta svæðisstöðvar með stuðningi frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu. Tilgangurinn er að að styðja við íþróttahéruð landsins í sambandi við innleiðingu á stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum og auka þátttöku barna sem búa við fötlun, barna af tekjulágum heimilum og barna af erlendu bergi sem glíma við menningar- og tungumálaörðugleika.

Með ráðningu á starfsfólki svæðisskrifstofanna er bundnar vonir við að þetta fyrirkomulag skili sér í bættri nýtingu mannauðs. Horft er til þess að stuðningur við einstök íþróttafélög aukist og þar af leiðandi verði þjónusta við iðkendur betri og það leiði til þess að aukinn fjöldi fái tækifæri til að stunda íþróttir hvort sem er til ánægju, heilsubótar eða með afreks árangur í huga. 

Þessir nýju starfsmenn hafa það hlutverk að þjónusta íþróttahéruðin í sínu nærumhverfi með samræmdum aðgerðum. Með ráðningu starfsmannanna er horft til þess að sterkari íþróttahéruð auki skilvirkni innan hreyfingarinnar og auðveldi þeim að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni. Ennfremur komi þeirra störf til með að styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu með það að markmiði að stuðla að farsæld barna sem og annarra sem nýta sér þjónustu sem íþróttahreyfingin hefur upp á að bjóða. 

Í samtali forsvarsmanna HSK, ÍBV og USVS var ákveðið að bjóða húsnæði í Selinu fyrir svæðisskrifstofuna og var það boð þegið.

Svæðisfulltrúarnir sem ráðnir voru á Suðurlandi eru þær: Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir og Rakel Magnúsdóttir. Bjóðum við þær hjartanlega velkomnar á okkar svæði og væntum góðs og árangursríks samstarfs við þær, svæðinu okkar til heilla.

 

Ýmiss verkefni                                                                             

Fulltrúar HSK sóttu hefðbundna fundi sem haldnir voru á vegum UMFÍ og ÍSÍ á liðnu starfsári sem og aðra viðburði á þeirra vegum og má lesa nánar um það í ársskýrslu HSK sem liggur frammi á þinginu.
               

Lokaorð

HSK félagar hafa ávallt verið þekktir fyrir styrk, hreysti og skemmtilegan keppnisanda á íþróttasviðinu. 

Eitt er það er sem stundum vill gleymast þegar kemur að íþróttastarfinu. Það er sú staðreynd að enginn kemst einn síns liðs á verðlaunapall. Það sem skiptir sköpum fyrir góðan árangur eru þjálfarar, aðstoðarfólk, aðstandendur, klappliðið og stuðningsaðilar. Því ber að þakka öllum sem gera og hafa gert íþróttafólkinu okkar kleift að ná jafn frábærum árangri og raun ber vitni í gegnum tíðina, innanlands sem erlendis. Við ykkur íþróttafólkið vil ég segja, þið eruð frábærar og ómetanlegar fyrirmyndir fyrir unga fólkið okkar. Með vilja ykkar, úthaldi, þrautseigju og vinnu hafið þið sýnt að þegar stefnan og markmiðin eru skýr eru möguleikarnir ávallt fyrir hendi.  

Afar mikilvægt er að við munum að íþróttir eiga að snúast um að hafa gaman. Það vilja ekki öll börn og ungmenni taka þátt í keppni og það ber að virða. 

Verum minnug þess að íþróttastarf barna og ungmenna á að snúast um vellíðan, að þeim líði vel í æfingahópnum sínum, því þá leiðast þau síður út í óæskilega hegðun eins og ofbeldi eða neyslu.

Það er erfitt að ímynda sér sambandssvæðið án kröftugs íþróttastarfs og því skiptir sköpum að ná lendingu í málum íþróttafélaga við Skattinn.

Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem komu að starfsemi HSK á árinu, stjórn, framkvæmdastjóra, stjórnum félaga, þjálfurum, iðkendum, foreldrum/forráðamönnum og velunnurum sambandsins þeirra framlag. Án ykkar væri lítið um starfsemi á sambandssvæði HSK. 

 

Guðríður Aadnegard

formaður HSK

 

Viðburðir

  • 27.07.2025 Landsmót UMFÍ 50+
  • 31.07.2025 Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum
  • Fleiri viðburðir
  • HSK met
  • Sögulegur fróðleikur
  • Ársskýrsla HSK


Úrslit héraðsmóta

15.05

Sund, héraðsmót 2025

29.04

Sund, aldursflokkamót 2025

11.04

Blak, héraðsmót stúlkna 2025

11.04

Blak, héraðsmót drengja 2025

13.01

Skák, sveitakeppni HSK

Fleiri úrslit

Nýjar myndir

Formannafundur HSK 2025

Héraðsmótið í sundi 2023

Unglingamót HSK í frjálsum inn..

Aldursflokkamót í frjálsum inn..

Fleiri myndir

Mótaskrá HSK

logo

Héraðssambandið Skarphéðinn

Selinu

Engjavegi 48

800 Selfossi

Sími 482 1189

hsk@hsk.is