Valmynd

  • Stjórn, nefndir og ráđ
  • |
  • Ađildarfélög
  • |
  • Lög og reglugerđir
  • |
  • Fundargerđir
  • |
  • Verkefnasjóđur
  • |
  • Um HSK
Hérađssambandiđ Skarphéđinn

 

2. apríl 2013

Pistill frá ađalfundi frjálsíţróttaráđs HSK

Í síðustu viku var haldinn aðalfundur frjálsíþróttaráðs HSK, fundurinn var ágætlega sóttur af  fulltrúum aðildarfélaga, sem allt er áhrifafólk í málefnum frjálsra íþrótta á HSK svæðinu.

Auk atkvæðafólksins voru gestir fundarins Jónas Egilsson formaður FRÍ, Örn Guðnason varaformaður HSK og Engilbert Olgeirsson framkvæmdastjóri HSK. Á fundinum var farið yfir starfsemina á síðasta ári og hugað að framtíð. Starfsemin var mjög öflug á liðnu ári, mótshaldið kröftugt, þar sem ráðið skipulagði m.a. átta héraðsmót, Vormót HSK, sem um leið var fyrsta mótið í nýrri mótaröð FRÍ, MÍ í fjölþrautum og lengri boðhlaupum og tók þátt í undirbúningi og framkvæmd velheppnaðs Unglingalandsmóts UMFÍ á Selfossvelli. Mikil uppsveifla hefur verið í frjálsum á sambandssvæðinu á liðnum árum og stígandi, sem sést best þegar frammistaða keppnisfólksins er skoðuð: Árið 2011 voru samtals sett 104 HSK met í hinum ýmsu aldursflokkum og keppnisgreinum og árið 2012 – viti menn þá urðu þau enn fleiri eða 124 talsins. Á árinu 2012 setti HSK fólk auk þess 18 Íslandsmet. Í febrúar á þessu ári kom síðan rúsínan í pylsuendanum, þegar keppnislið okkar vann heildarstigakeppnina á MÍ 11-14 ára, sem er ekki neitt smáræðis afrek, því þar er um að ræða eitt stærsta íþróttamót sem haldið er á Íslandi. Á fundinum hrósaði líka formaður Frjálsíþróttasambandins HSK sérstaklega fyrir frábæran árangur á því móti, sérstaklega hafi verið tekið eftir því hve mikilli breidd HSK liðið hafi teflt fram, Íslandsmeistaratitill hjá 11 ára strákum og aðrir flokkar ungmennanna voru alls staðar framarlega, sem síðan hafi fært liðinu  hinn eftirsótta Íslandsmeistaratitil. Það er ljóst að margir lögðust á árina við að skapa þennan árangur keppnisfólksins og auðga ástundun þess. Fyrstan skal nefna Ólaf Guðmundsson, verkefnisstjóra frjálsíþróttaráðs, síðan hinn góða hóp framúrskarandi þjálfara á sambandssvæðinu, virka forráðamenn félaga/deilda, góðan stuðning frá stjórn HSK og loks auðvitað SAMEINUÐU keppnisliði HSK með Umf. Selfoss innanborðs. Það verður þó að segjast að það eru blikur á lofti í þeim efnum, þar sem tilkynnt var á aðalfundinum að Umf Selfoss hyggðist keppa undir eigin merkjum, en ekki undir nafni HSK á Meistaramótum FRÍ frá næstu áramótum. Þessa ákvörðun hafði Umf Selfoss tekið fyrir aðalfund frjálsíþróttaráðs og hafa vitaskuld sínar ástæður fyrir því. Þetta er þó undirrituðum viss vonbrigði, þar sem ljóst er að liðsárangur beggja á  Meistaramótum verður lakari fyrir vikið og bæði lið HSK og Umf Selfoss munu eiga erfiðara uppdráttar í hörðum stigaslag þar sem breiddin er lykilatriði. Sjaldan veldur einn þá tveir deila, en ein ástæða fyrir því að frjálsíþróttadeild Umf Selfoss tekur þessa ákvörðun er að þau skynja útbreidda óánægju með nafn keppnisliðsins, en staðreynd er að sumir, jafnvel allmargir, sætta sig illa við að stærsta félagið fái nafn sitt sérstaklega í heiti liðsins: HSK-Selfoss, en það ráðslag hefur verið haft á síðustu árum og var skilyrði frá Umf Selfoss. Hér með skorar undirritaður á frjálsíþróttadeild  Umf Selfoss að endurskoða þessa ákvörðun sína og sundra ekki sameinuðu HSK keppnisliði á næsta ári, heldur keppa undir nafni HSK og setja þá um leið niður alla óeiningu.

Hvað sem öðru líður er ljóst að ærin verkefni bíða frjálsíþróttafólks HSK. Mikill metnaður er í okkar fólki fyrir Landsmót UMFÍ á Selfossi næsta sumar og er takmarkið auðvitað ágætur árangur í frjálsum og endurheimt fornrar sigurfrægðar HSK. Frjálsíþróttaráð mun ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum, allt verður lagt í sölurnar þar sem m.a. verður ráðinn sérstakur verkefnisstjóri til að sjá um lokaundirbúning keppnisliðsins. Eftir Landsmót verður slagkrafturinn síðan nýttur til hins ýtrasta  og stefnt að stjörnuárangri í Bikarkeppni sumarsins.

Á fundinum var kjörin ný stjórn frjálsíþróttaráðs, sem nú skipa: Ingvar Garðarsson, Steinunn Emelía Þorsteinsdóttir, Tómas Karl Guðsteinsson og Guðmunda Ólafsdóttir - allt dugnaðarfólk. Ekki tókst að skipa fimmta sætið í ráðinu á fundinum, en Umf. Laugdæla var falið það verkefni að finna kandídat.

Fyrir fundinn hafði undirritaður tekið þá ákvörðun að hætta í ráðinu, enda búinn að standa vaktina sem formaður ráðsins síðustu sjö ár. Þau ár eru eftirminnileg þar sem undirritaður hefur notið þeirrar gæfu að kynnast fjölmörgu úrvalsfólki, kappsfullu og metnaðargjörnu. Fyrir þetta er þakkað og færðar fram óskir um blómlegt frjálsíþróttastarf í framtíðinni.

Viđburđir

  • 15.07.2025 Hérađsmót fatlađra í frjálsum íţróttum
  • 15.07.2025 Hérađsmót HSK í frjálsum íţróttum
  • 27.07.2025 Landsmót UMFÍ 50+
  • 31.07.2025 Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöđum
  • Fleiri viđburđir
  • HSK met
  • Sögulegur fróđleikur
  • Ársskýrsla HSK


Úrslit hérađsmóta

15.05

Sund, hérađsmót 2025

29.04

Sund, aldursflokkamót 2025

11.04

Blak, hérađsmót stúlkna 2025

11.04

Blak, hérađsmót drengja 2025

13.01

Skák, sveitakeppni HSK

Fleiri úrslit

Nýjar myndir

Formannafundur HSK 2025

Hérađsmótiđ í sundi 2023

Unglingamót HSK í frjálsum inn..

Aldursflokkamót í frjálsum inn..

Fleiri myndir

Mótaskrá HSK

15.07

Frjálsar, hérađsmót fatlađra

15.07

Frjálsar, hérađsmót

logo

Hérađssambandiđ Skarphéđinn

Selinu

Engjavegi 48

800 Selfossi

Sími 482 1189

hsk@hsk.is