Valmynd

  • Stjórn, nefndir og ráð
  • |
  • Aðildarfélög
  • |
  • Lög og reglugerðir
  • |
  • Fundargerðir
  • |
  • Verkefnasjóður
  • |
  • Um HSK
Héraðssambandið Skarphéðinn

 

28. maí 2014

Nú er lag!

Hvað er það sem skiptir höfuðmáli fyrir velgengni í íþróttastarfi? Því er auðsvarað, það er gott og öflugt net sjálfboðaliða. Sjálfboðaliðastarf HSK er afar veigamikill þáttur í starfi sambandsins bæði félags-  og rekstrarlega, þar sem fjármunir sparast og viðburðir á vegum HSK fá góðan orðstír.

Enginn þarf að velkjast í vafa um að íþróttahreyfingin er fjölmennasta áhugamannahreyfingin í landinu með yfir 70 þúsund iðkendur og mörg þúsund sjálfboðaliða í nefndum og stjórnum hreyfingarinnar. Sjálfboðaliðarnir skila af sér gífurlegu vinnuframlagi. Þeir leggja á sig ómælda vinnu og án þeirra starfskrafta væri ógerningur að halda úti jafn glæsilegu  íþróttastarfi og raun ber vitni.

Þegar ég hugsa síðan til afreksfólks okkar þá er það með ólíkinum hvað það fólk er tilbúið að leggja á sig til að fjármagna æfinga- og keppnisferðir sínar.

Vel  hefur verið staðið að uppbyggingu íþróttamannvirkja og bættri  aðstöðu til íþróttaiðkunar víða í kjördæminu og geta íbúar verið stoltir yfir þeirri góðu aðstöðu sem íþróttafólk á Suðurlandi býr við og fyrir það ber að þakka ríki, sveitarfélögum og ekki síst sjálfboðaliðum. Margir sem starfa erlendis undrast mjög árangur íslenskra íþróttamanna miðað við það fjármagn sem sett er í þennan málaflokk.

Við sem störfum innan íþróttahreyfingarinnar vitum vel að ekki er hlúð nægjanlega að afreksfólki okkar. Sumir segja að afreksstarfið snúist um sérþarfir fámenns hóps sem kaus sjálfur að feta þessa slóð. Væri ekki ráð fyrir þá sem þessa skoðun hafa að velta fyrir sér samfélagslegu gildi íþróttahreyfingarinnar og setja hlutina í samhengi?  Margt af  íþróttafólki okkar og ekki síst afreksfólki leggur mjög mikið á sig til að vera landi og þjóð til sóma og berst í bökkum fjárhagslega til að geta  tekið þátt í grein sinni á erlendum vettvangi.

Ríkisvaldið hefur skorið niður framlög til íþróttamála árum saman en nú er mál að linni. Margir hafa notað öll tækifæri til að gera starf okkar í íþróttahreyfingunni tortryggilegt og  ráðherrar sem hafa yfir málefnum  íþrótta- og æskulýðsstarfs að ráða, lítið gert til þess verja hreyfinguna.

Við eigum ekki að stilla málum upp þannig að umræðan snúist um það hvort fjármunir eigi frekar að renna til menningar og lista fremur en til íþróttastarfseminnar. Við þurfum að ná eyrum stjórnvalda og fá þau til þess að tryggja þessum mikilvægu samfélagsþáttum nægjanlegt fjármagn til þess að hér blómstri, sem aldrei fyrr, öflugt menningar- og íþróttastarf.  

Við þekkjum líka til fjölda rannsókna sem sýna að öflugt íþróttastarf, reglubundnar æfingar og hverskonar hreyfing kemur í veg fyrir að fjölmargir sjúkdómar lami þrótt, stytti líf eða ræni marga heilsunni langt um aldur fram. Við vitum líka að íþróttaiðkun dregur einnig stórlega úr hættunni á að unglingar verði fórnarlömb eiturlyfja.  Íþróttaiðkun ungmenna  gefur líkamanum styrk til að verjast veikindum sem kunna að knýja dyra seinna á lífsleiðinni.

 Margt hefur verið ritað og rætt á liðnum árum um heilbrigðisþjónustuna, kostnað við rekstur sjúkrahúsa og heilsugæslu, meðferðarstofnana og við endurhæfingu. Þessi þáttur er einn  dýrasti þátturinn í útgjöldum hins opinbera. Að þessu sögðu er vert að velta þessum hlutum upp þegar  stjórnvöld meta hvaða fjármunir skuli renna til íþróttanna og þau hafi  í huga þann  mikla ávinning sem í íþróttum felast fyrir heilbrigðiskerfið, og geri sér grein fyrir að í þessu öllu saman  felst sparnaður fyrir þjóðarbúið sem fylgir því að sem flestir leggi rækt við reglubundna hreyfingu og íþróttaiðkan  jafnt og þétt frá vöggu til grafar. Þeir sem deila út fjármunum ættu að hafa þessar staðreyndir í huga þegar fjárhagsrammi íþróttanna er borinn saman við önnur útgjöld.

 Lengi hefur verið vitað  að öflugt íþróttastarf getur komið í veg  fyrir milljarðaútgjöld í rekstri heilbrigðisstofnana ár hvert og er fjármunum til íþrótta því vel varið.  Margir líta á íþróttastarfið sem félagslíf og menningarauka sem það vissulega er, en rannsóknir hafa einnig sýnt  fram á,  að íþróttirnar eru líka burðarás í nútímavæddu heilbrigðiskerfi og því segi ég enn og aftur: Þeir sem útdeila fjármunum  ættu að hafa þessa þætti í huga og deila út  í samhengi við þennan veruleika.

Ef ekki væri fyrir einstaka góðmennsku einstaklinga og fyrirtækja  sem sýna íþróttastarfinu mikinn velvilja, væri fjárhagsstaða okkar í íþróttahreyfingunni enn daprari en raun ber.

Ekki er endalaust hægt að reka starfssemi íþróttahreyfingarinnar á framlagi sjálfboðaliða,  en á þeirra framlag virðast stjórnvöld hafa treyst og ef til vill þess vegna skorið jafn hressilega niður fjármagn til íþróttamála og gert hefur verið. 

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar eru lýðheilsa og forvarnarstarf meðal forgangsverkefna og ennfremur er sjálboðaliðastarf frjálsra félagasamtaka viðurkennt sem samfélagslegt mikilvægi. Núverandi stjórnarherrar hafa lýst yfir vilja sínum til að greiða götu þeirra sem vinna að því að efla og bæta íslenskt samfélag og í þeim anda vinnur  íþróttahreyfingin svo sannarlega.

Nú þurfa stjórnvöld að sýna í verki, að á bak við orðin standi efndir, ekki aðeins orð á blöðum sem lesin eru upp á tyllidögum. Þó stjórnvöld hafi bætt örlítið í undangengin ár þá er það fjármagn sem íþróttahreyfingunni er úthlutað,  að mínu mati engan veginn nægjanlegt og þarf að gera enn betur.

Við heyrum í fjölmiðlum að kreppan sé nánast að baki, við heyrum af óheyrilega háum launum sumra í þjóðfélaginu, við heyrum af miklum arði sumra fyrirtækja, en hvenær fáum við að heyra af sanngjörnum fjármunum sem varið er til íþróttamála ? 

Ég skora á þá sveitarstjórnarmenn sem ná kjöri í væntanlegum sveitarstjórnarkosningum 31. maí n.k.  að taka höndum saman og berjast með okkur í íþróttahreyfingunni fyrir auknu frjárframlagi til íþróttamála,  kjördæminu okkar til heilla.

Gleymum því ekki að gott samfélag byggir á heilbrigðum einstaklingum. Jákvætt viðhorf til lífsins og íþróttamannsleg framkoma hefur mikið að segja við mótun samfélagsins. Framtíð okkar felst í unga fólkinu, þeim sem munu erfa landið.  Marga glæsta sigra hafa sunnlenskir íþróttamenn unnið í gegnum tíðina,  en höfum hugfast að á bak við sigrana liggur einurð, fórnfýsi og þrotlaust starf margra.    

 

Samtaka nú, koma svo!

Guðríður Aadnegard, formaður HSK

Viðburðir

  • 15.07.2025 Héraðsmót fatlaðra í frjálsum íþróttum
  • 15.07.2025 Héraðsmót HSK í frjálsum íþróttum
  • 27.07.2025 Landsmót UMFÍ 50+
  • 31.07.2025 Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum
  • Fleiri viðburðir
  • HSK met
  • Sögulegur fróðleikur
  • Ársskýrsla HSK


Úrslit héraðsmóta

15.05

Sund, héraðsmót 2025

29.04

Sund, aldursflokkamót 2025

11.04

Blak, héraðsmót stúlkna 2025

11.04

Blak, héraðsmót drengja 2025

13.01

Skák, sveitakeppni HSK

Fleiri úrslit

Nýjar myndir

Formannafundur HSK 2025

Héraðsmótið í sundi 2023

Unglingamót HSK í frjálsum inn..

Aldursflokkamót í frjálsum inn..

Fleiri myndir

Mótaskrá HSK

15.07

Frjálsar, héraðsmót fatlaðra

15.07

Frjálsar, héraðsmót

logo

Héraðssambandið Skarphéðinn

Selinu

Engjavegi 48

800 Selfossi

Sími 482 1189

hsk@hsk.is